Leit er hafin á Sólheimasandi að bandarískum karlmanni sem kom hingað til lands 12. október og átti bókað flug úr landi næsta dag, en sem ekkert hefur spurst til síðan.
mbl.is greinir frá þessu.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um hvarf mannsins í gærkvöldi og fór lögreglan á Suðurlandi að svipast um eftir manninum í morgun. Bíll hans fannst fyrir hádegi í dag við flugvélarflakið á Sólheimasandi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út og eru byrjaðar að leita mannsins.