Í nótt voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar til leitar að fólki á Langjökli.
Aðstandendur fólksins sem er á þremur jeppum hafði samband þar sem þau voru farin að óttast um þau.
Sjö jeppar voru sendir á Langjökul eftir tveimur leiðum en fljótlega tókst að staðsetja fólkið ekki langt frá Þórisjökli sunnan Langjökuls.
Um hálfáttaleytið í morgun sá björgunarsveitarfólk til jeppanna og eru þau staðsett töluvert sunnan Langjökuls, rétt norðan við Skjaldbreið.
Ekki er talið að neitt ami að fólkinu heldur sé um að ræða bilun eða þau hafi fest bíla sína.
UPPFÆRT 11:00: Björgunarsveitarfólk kom að jeppafólkinu á áttunda tímanum í morgun eftir um sex tíma ferðalag. Ekkert amar að fólkinu en svo virðist sem bíll eða bílar hafi bilað eða þeir fest sig. Um hálfníu í morgun lögðu björgunarmenn af stað með fólkið í bílunum. Ferðin gengur afar hægt svo ekki er reiknað með þeim til byggða fyrr en um miðjan dag.