Björgunarsveitir hafa í alla nótt leitað tveggja ferðamanna sem í gærkvöldi tilkynntu um að þeir hefðu lokast inni í helli á Kerlingarfjallasvæðinu.
Skyggni til leitar í nótt hefur verið slæmt, lágskýjað og rigning, en nú í morgunsárið birti til á leitarsvæðinu.
Björgunarfólk hefur leitað vel á og í kringum þá staðsetningu sem fylgdi boðunum í gær. Þar hefur enn ekkert fundist. Gengið er út frá því að fólkið sé í helli, og verið er að þræða alla þekkta hella á svæðinu.
Nú eru við leit á svæðinu 135 manns en 150 hafa komið að aðgerðinni frá því hún hófst í gær. Þyrla frá Landhelgisgæslu varð frá að hverfa í nótt vegna skyggnis en mun taka þátt í leit að nýju með morgninum.