Björgunarsveitir úr Árnessýslu hafa í dag leitað að Ríkharði Péturssyni sem lögreglan á Suðurlandi lýsti eftir í gær. Vísbendingum sem hafa borist lögreglu var fylgt eftir en leitin í dag bar ekki árangur og var henni frestað til kl. 9:00 í fyrramálið.
Um 50 til 60 björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni í dag en auk gangandi leitarmanna var leitað með hundum, drónum, bílum, sexhjólum og bátum. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók einnig þátt í leitinni.
Á morgun má búast við því að björgunarsveitarfólk leiti innanbæjar og eru íbúar Selfoss beðnir um að sýna þeim skilning í þeirra verkefnum.
Íbúar á Selfossi og í nágrenni eru beðnir um að leita í görðum sínum og á lóðum vinnustaða.
Ríkharður, sem er meðalmaður á hæð, grannvaxinn, fór frá heimili sínu að Eyrarvegi 46 á Selfossi um kl. 16:00 sl. þriðjudag en ekki er vitað um ferðir hans eftir það. Hann var þá klæddur í svartar buxur, svarta úlpu og svarta húfu með gulri MAX áletrun.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Ríkharðs eftir kl. 16:00 sl. þriðjudag eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 4442000, 112 eða á einkaskilaboðum á Facebook.