Í dag lauk reglubundnum mælingum á varpárangri spóa og fleiri mófugla í Rangárvallasýslu sem farið hafa fram í síðustu viku júlí í nokkur ár á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi.
Aðeins fundust spóar með unga á 19 stöðum á móti 79 stöðum í fyrra sem var metár.
Mælingin hefur verið framkvæmd árlega frá árinu 2011. Hún fer þannig fram að ekið er eftir tæplega 200 km löngu sniði sem liggur um Eyjafjöll, Fljótshlíð, Landeyjar og Holtin og æstir foreldrar með unga taldir. Mælikvarði á varpárangur er fjöldi systkynahópa.
„Árið í ár er það lélegasta frá því mælingar hófust og vafalaust má kenna bleytu og kulda þar um. Litlir ungar eru sérlega viðkvæmir fyrir vosbúð en þeir eru illa einangraðir fyrstu vikurnar áður en þeim vaxa fjaðrir. Foreldrarnir skýla þeim fyrir veðrum með því að liggja ofan á þeim en ungarnir geta ekki leitað sér fæðu á meðan,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður rannsóknasetursins.