Lélegt hey þrátt fyrir góða sprettu

„Við höfum ekki séð svona léleg hey í mörg ár. Síðasta sumar var slæmt en þetta ætlar að verða verra þrátt fyrir góða sprettu,“ segir Ragnar M. Lárusson, formaður Búnaðarsambands Suðurlands og bóndi í Stóradal undir Vestur-Eyjafjöllum.

„Nú þurfum við þrjá til fjóra þurra daga í röð og þá ná menn að klára mikið. Ég er t.d. að bíða eftir að getað klárað fyrri slátt, á rúmlega tíu hektara eftir af þeim áttatíu hekturum sem ég slæ,“ bætir Ragnar við.

Hann er þó á því að ekkert þýði að væla yfir rigningunni.

„Við verðum að reyna að bera okkur vel og vona að að haustið verði gott fyrir kornbændur, þurrt og sólríkt, ekki eins og í fyrrahaust. Ég veit að enn eiga einhverjir bændur eftir að ljúka fyrri slætti og aðrir eru byrjaðir á öðrum slætti,“ segir Ragnar og heldur áfram.

„Sumarið hefur fyrst og fremst verið óvenjulegt, hlýtt en miklar rigningar, sem hefur gert okkur ákaflega erfitt fyrir.“

Fyrri greinKristinn aftur til starfa í Selfosskirkju
Næsta greinStrákarnir okkar: Viðar með þrennu í mögnuðum leik