Kona á áttræðisaldri lést í nótt þegar eldur kom upp í hjólhýsi í hjólhýsahverfi í Þjórsárdal. Eiginmanni konunnar tókst með naumindum að komast út og var hann fluttur á sjúkrahús með brunasár á andliti og höndum.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn um klukkan tvö í nótt og voru slökkviliðsmenn frá Árnesi og Selfossi kallaðir út ásamt lögreglu og sjúkraliði.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi rannsakar eldsupptökin og nýtur við það aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki er unnt að greina frá nafni hinnar látnu að svo stöddu.