Maðurinn sem lést í Brúará í Biskupstungum í gær var kanadískur ríkisborgari, búsettur í Bandaríkjunum. Hann hafði komið syni sínum til bjargar, sem fallið hafði í ána, en við það missti maðurinn sjálfur fótanna og barst niður eftir ánni. Drengurinn slapp án meiðsla.
Maðurinn barst 400-500 metra niður eftir ánni þar sem þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fann hann látinn. Áin er mjög köld og straumþung á þessum stað, en slysið varð við Miðfossa, vestan við sumarhúsabyggðina í Reykjaskógi.
Lögreglan vinnur áfram að rannsókn málsins en í tilkynningu frá henni eru þakkir færðar viðbragðsaðilum og öðrum vegfarendum sem komu að og aðstoðuðu í tengslum við slysið.