Í síðustu viku afhenti Lionsklúbbur Selfoss ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi formlega fæðingarúm af nýjustu gerð, ásamt saumaborði. Heildarandvirði gjafarinnar er tæpar 2,7 milljónir króna.
Nýja rúmið léttir ljósmæðrum störfin við að aðstoða konur í fæðingu, því rúmið er hægt að hækka og lækka eftir þörfum og er með margskonar nýjungar sem eykur á öryggi og þægindi kvennanna sjálfra í fæðingunni og auðvelt að aðlaga rúmið að óskum hverrar konu, enda engin eins eða með sömu þarfir.
Í tilkynningu frá HSU segir að þessi gjöf sé einstaklega kærkomin. Eldra fæðingarúmið var komið til ára sinna og mikil þörf á endurnýjun. Fyrir ári síðan færði Lionsklúbbur Selfossi fæðingardeildinni LazyBoy stól, súrefnismettunarmæli og fósturhjartsláttarnema og heyrðu þá að þörf væri á nýju rúmi. Það varð því úr að söfnun hófst um leið.