Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu Sunnlendingar ársins 2018

Ljósmynd/BÁ

Lesendur sunnlenska.is kusu liðsmenn Brunavarna Árnessýslu Sunnlending ársins 2018. Slökkviliðið fékk yfirburðakosningu en þátttakan í atkvæðagreiðslunni var góð að vanda.

Það mæddi mikið á liðsmönnum Brunavarna Árnessýslu á síðasta ári en eitt erfiðasta útkall ársins var bruninn á Kirkjuvegi 18 á Selfossi þann 31. október en tvennt lést í eldsvoðanum. Brunavarnir Árnessýslu sinntu verkefninu af mikilli fagmennsku, eins og öllum öðrum útköllum ársins.

Þetta er níunda árið í röð sem lesendur sunnlenska.is kjósa Sunnlending ársins. Alls fengu 15 Sunnlendingar atkvæði í kjörinu að þessu sinni.

Í öðru sæti í kosningunni varð Tryggvi Ingólfsson á Hvolsvelli, en hann hefur ásamt fjölskyldu sinni barist fyrir búseturétti sínum í heimabyggð. Í þriðja sæti í kosningunni varð svo Leó Árnason, forsvarsmaður nýja miðbæjarins á Selfossi, en eftir íbúakosningu í ágúst hófust verklegar framkvæmdir í nóvember.

Viðtal við Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóra, mun birtast á sunnlenska.is á morgun.

Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu í uppsveitunum. Ljósmynd/BÁ
Bruninn á Kirkjuvegi 18 þann 31. október. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinBirna Sólveig íþróttamaður ársins hjá Kötlu
Næsta greinÞór skellti toppliðinu