„Lífið er alltof stutt til að borða óspennandi mat“

Anna Guðný Torfadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þorlákshafnarmærin Anna Guðný Torfadóttir hefur um árabil haldið úti heilsublogginu Heilsa og vellíðan við miklar vinsældir.

„Þegar að ég var 17 ára fékk ég mikið fæðuóþol og hætti að geta borðað hefðbundna fæðu. Ég þurfti að taka út glúten, mjólkurvörur og unninn sykur. Þó það var mikið bras að taka þetta allt út á sama tíma þá sá ég í kjölfarið hversu máttugt það var að borða hreinu fæðu. Þegar ég var komin upp á lag með að borða svona hreina fæðu þá fann ég ástríðuna fyrir því að búa til uppskriftir, mynda og deila með fleirum – því mig langaði að hjálpa fleirum að upplifa skýrleikann, lífsgleðina og orkuna sem fylgdi því að borða hreina fæðu,“ segir Anna Guðný, í samtali við sunnlenska.is um upphafið að blogginu.

„Ég elska að sýna fólki að þó maður borði holla fæðu þá geti maður haldið áfram að borða mjög girnilegan og bragðgóðan mat – en sjálf er ég algjör sælkeri og lifi fyrir það að borða mat.“

„Aðeins seinna fór ég svo að vinna í andlegu heilsunni minni vegna mikils kvíða og þá sá ég hversu máttugt það var að vinna í henni – að hún stýrir 70% af líðan manns og mataræðið svona 30%. Þó ég borði súperhollt þá líður mér ekki vel ef ég er ekki að hlúa að andlegri líðan minni. Svo það kom inn í ástríðuna líka og ég fór að skrifa greinar sem tengjast andlegri heilsu líka. Í dag starfa ég svo sem þerapisti, ásamt því að vinna sem heilsumarkþjálfi líka,“ segir Anna Guðný.

Mikilvægt að hlusta á líkamann
Anna Guðný segir að viðbrögðin við blogginu hafi verið mjög góð. „Mér þykir alltaf jafn vænt um að heyra frá fólki að ákveðnar uppskriftir á blogginu mínu séu orðnar að hefð á hátíðardögum á þeirra heimili.“

„Þegar ég þurfti að breyta mataræðinu mínu sökum fæðuóþolsins þá vaknaði upp mikill áhugi, þegar ég sá svona skýrt á mínum eigin líkama hversu áhrifaríkt það er að taka ábyrgð á heilsu sinni og hversu mikið maður getur gert sjálfur til að auka sína eigin vellíðan og lífsgleði. Þarna fann ég að við getum gert svo margt sjálf til að upplifa bætta heilsu og vellíðan. Að mínu mati er líkaminn okkar stórmagnaður og alltaf að gefa okkur skilaboð um það hvað hann vill og hvað ekki. Með því að hlusta á þennan magnaða leiðarvísi getum við upplifað svo mikla vellíðan,“ segir Anna Guðný en bloggið fór í loftið árið 2013.

Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir

Fær oft hugmyndir að uppskriftum í jóga
Auk þess að halda úti bloggsíðunni hefur Anna Guðný gefið út rafbók með uppskriftum sem fékk mjög góðar viðtökur. Draumurinn er svo að gefa einnig út bók í raunheimum. „Ég er í skýjunum yfir hversu góðar viðtökur rafræna uppskriftabókin mín hefur fengið og því klárlega tilefni til að búa til alvöru bók. Ég hef verið með þann draum í maganum lengi og markmiðið er að byrja á því verkefni í haust. Ég er svo þakklát covid fyrir að hafa fært mér systur mína, Ingibjörgu Torfadóttur, frá útlöndum til landsins svo að nú hef ég minn einkaljósmyndara með mér í þetta verkefni.“

„Ég fæ oft hugmyndir að nýjum uppskriftum þegar að ég er að leika mér í eldhúsinu í góðu flæði. En svo poppa upp oft hugmyndir til mín bara í jóga, hugleiðslu eða úti í náttúrunni. Þá fæ ég einhverja samsetningu á heilann sem ég verð bara að prófa helst strax í dag til að sjá hvernig hún kemur út.“

Ljósmynd/Anna Guðný

Ekki týpan sem borðar þurrt salat
Anna Guðný segir að það sem einkenni helst uppskriftirnar hennar sé að þær séu að hennar mati djúsí. „Svona djúsí – hollar. En ég er ekki týpan sem að elskar að borða þurrt salat, eða pína eitthvað óspennandi ofan í mig bara vegna þess að það er hollt. Fæðan verður að vera virkilega girnileg, næringarrík og virkilega góð. Matmálstímar eru mjög hátíðlegir fyrir mér og lífið er alltof stutt til að borða óspennandi mat.“

„Allar mínar uppskriftir eru vegan, glútenlausar og innihalda ekki unninn sykur. Þannig að það ættu flestir að geta notið þeirra í botn án þess að þurfa að upplifa neina vanlíðan eða óheilbrigðar matarlanganir á eftir,“ segir Anna Guðný og brosir.

Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir

Alhliða netnámskeið um heilsu og vellíðan
Anna Guðný býður upp á netnámskeið fyrir fólk sem vill ná betri heilsu. „Netnámskeiðið mitt er fyrir alla þá sem vilja gera varanlegar lífsstílsbreytingar á mjúkan, geranlegan og þægilegan máta. Þetta er sex mánaða netnámskeið þar sem að ég er með allan fróðleik á myndbandaformi og styð svo við fólk í gegnum vikulega spurningalista.“

„Á námskeiðinu er fróðleikur og verkefni sem varðar mataræði, andlega heilsu, sjálfsmýkt, hreyfingu og í rauninni allt sem viðkemur heilbrigðum lífsstíl. Einnig eru sérhannaðar hugleiðslur fyrir hvern mánuð til að styðja ennþá dýpra við fólk að taka skref mánaðarins. Það eru lítil geranleg skref í hverjum mánuði svo að fólk geti auðveldlega innleitt heilbrigðan lífsstíl í sína dagsrútínu og í leiðinni fundið hvaða áhrif hvert skref hefur. En á námskeiðinu fær fólk rafrænu uppskriftabókina mína, það eru uppskriftarmyndbönd og öll tól til að taka út unninn sykur, mjólkurvörur og glúten.“

„Einnig eru allar uppskriftir námskeiðsins plöntumiðaðar en enginn pressa á neinn að taka skref sem að fólk er ekki tilbúið til. Þannig að ég sái ákveðnum fræjum í hverjum mánuði og svo er það undir kúnnunum mínum komið hversu langt þeir vilja fara með hvert fræ. En í gegnum vikulegu spurningalistana get ég stutt sérstaklega vel við hvern og einn á þeim stað sem viðkomandi er á. Það er alltaf hægt að hoppa á námskeiðið mitt og nánari upplýsingar má finna hér,“ segir Anna Guðný.

Ljósmynd/Anna Guðný

Mikill kraftur fólginn í því að taka ábyrgð á eigin heilsu
Aðspurð hvað sé góð heilsa fyrir henni segir Anna Guðný að það sé þegar maður tekur fallega utan um sjálfan sig út frá sjálfsást alla daga. „Maður hlúir að sjálfum sér eins og maður myndi hlúa að litlu barni. Sér til þess að maður standi með sjálfum sér, finni tíma til að hlúa vel að sér með góðum svefni, næringarríkum mat, skemmtilegri hreyfingu, mjúkri hugleiðslu, sinna áhugamálum sínum, tengjast gefandi fólki, gefa sér daglega tíma úti í náttúrunni, njóta með barninu sínu, starfa við það sem maður elskar, gera öndunaræfingar og skora á sig í kuldanum.“

„Þetta er góð heilsa fyrir mér og þetta er það sem að reynist mér rosalega vel til þess að vera í góðu jafnvægi. Allt sem maður gerir á hverjum einasta degi hefur áhrif á heilsu manns og vellíðan – þetta spilar allt saman. Það er svo mikilvægt að hver finni fyrir sig og hlusti á sinn líkama og sínar tilfinningar til þess að vita hvað er það sem að gerir gott fyrir mann.“

„Krafturinn í því að taka ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan er mjög mikill, því það veit enginn hvað er best fyrir þig nema þú sjálfur og svo gott að vita að maður getur látið sér líða vel sjálfur og er ekki háður neinum öðrum um það,“ segir Anna Guðný.

Ljósmynd/Aðsend

Þerapía sem gjörbreytti lífinu
„Ég er líka að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig sem er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. En það eru 90 mínútna einstaklingstímar á þriggja vikna fresti þar sem fólk kemur til mín í þægilegt og afslappað umhverfi eða hittir mig á netinu. Þar hjálpa ég fólki að sjá hversu magnað það er, með uppbyggjandi fróðleik og verkefnum.“

„Ég fór í gegnum þessa þerapíu sjálf og gjörbreytti hún lífi mínu á þann hátt að ég fór að virkilega átta mig á hverju ég hef ástríðu fyrir og gaf mér kraftinn til þess að elta mína drauma án þess að vera að pæla í skoðunum annarra. Í gegnum þerapíuna lærði ég að kynnast sjálfri mér á allt annan hátt og þora að vera 100% ég sjálf í öllum aðstæðum. Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir, þerapisti, bjó til þessa þerapíu og ég var svo heppin að fá að læra hjá henni að kenna þessa stórmögnuðu þerapíu. Fyrir það er ég henni mjög þakklát. Nánari upplýsingar um þerapíuna hér,“ segir Anna Guðný.

„Ef ég ætti að segja einhver lokaorð þá væri það að hvetja fólk til að fara út í náttúruna, þar gerast töfrarnir,“ segir Anna Guðný að lokum.

Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Fyrri greinAukin skriðuhætta í vatnsveðrinu
Næsta greinHlaup hafið úr Eystri-Skaftárkatli