„Lífið er núna dagurinn“ á fimmtudag

Í tilefni af Vitundarvakningu Krafts verður „Lífið er núna dagurinn“ haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 30. janúar.

„Þennan dag hvetjum við almenning og fyrirtæki í landinu til að halda hátíðlegan Lífið er núna daginn en tilgangur hans er að minna fólk á að staldra við og njóta líðandi stundar“, segir Þórunn Hilda Jónasdóttir, viðburða- og þjónustustjóri Krafts.

Vinnustaðir eru hvattir til að brjóta upp hversdagsleikann með því t.d. að bjóða upp á appelsínugular veitingar og þær byggingar sem hafa tök á verða lýstar upp með appelsínugulri lýsingu sem er litur Krafts. Fólk getur klæðst appelsínugulu eða mætt í sínu fínasta pússi í vinnuna, tilvalið er að draga fram sparistellið, byrja lífsstílsbreytinguna, hringja í gamlan vin eða bara baka uppáhaldskökuna þó svo það sé ekki veisla framundan.

Í tilefni dagsins verður boðið uppá létta pop-up tónleika með söngkonunni Rakel Sigurðardóttur í Rammagerðinni á Laugavegi 31 kl. 17:30 – 18:00. Rakel söng lagið “Ég á lítinn skrítinn skugga”, eftir Gunnar Þórðarson við texta Sigurðar Júlíusar Jóhannessonar í nýrri útgáfu og heyrist í auglýsingu Krafts sem er hluti af vitundarvakningunni í ár.

Tónleikarnir verða í sýningarsal Rammagerðarinnar, þar sem nú stendur yfir sýning á verkum Tótu Van Helzing HOUSE OF VAN HELZING en sýningin er haldin í tilefni af vitundarvakningu Krafts.

Fjáröflunarvara Krafts, Lífið er núna-húfan, sækir innblástur í hönnun listakonunnar Tótu Van Helzing sem var félagsmaður í Krafti og var stórkostlegur prjónahönnuður.

Fyrri greinÖlfusárbrú lokuð í nótt
Næsta greinGestirnir grimmari á endasprettinum