Þrátt fyrir minni fjárframlög til FSu og aðhaldsaðgerðir innanhúss vegna þess gekk skólastarf vel á þessari önn. Þetta kom fram í annál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara.
Vegna minni fjárframlaga var ekki hægt að halda uppi fjarkennslu nemenda sem enn eru skráðir í 10. bekk í grunnskóla, minna hefur verið keypt af tækjum og tólum til stofnunarinnar og einnig hefur enginn meistaraskóli verið í gangi. Þá hefur starfsfólk orðið vart við aukið álag sem birtist aðallega í stærri námshópum og auknum erfiðleikum unga fólksins. Starfsfólk skólans hefur reynt að lækka kostnað eins og mögulegt er án þess að það hafi bein áhrif á kennsluna. Þórarinn greindi frá því að ljóst sé að framhald verði á þessum aðhaldsaðgerðum þar sem skólanum er gert að spara enn frekar á næsta skólaári.
Námsferðum bæði innan lands og utan hefur fækkað og sömuleiðis heimsóknum til skólans frá erlendum skólum. Þórarinn segir kennara skólans þó hafa verið ótrúlega hugmyndaríka við að finna nýjar leiðir til fræðslu nemenda.
Nemendur voru 933 í dagskóla í upphafi annar, þar af voru 24 svokallaðir „ofurbusar“, en það eru nemendur sem koma alfarið í FSu eftir að hafa verið hálft skólaár í 10. bekk grunnskóla.
Nemendur skólans lögðu upp með 15.850 einingar og við annarlok stóðust þeir 12.276 einingar, eða tæplega 22,55%. „Þetta er heldur lakari árangur en síðustu tvær vorannir og auðvitað eitthvað sem við viljum snúa við sem fyrst,” sagði Þórarinn.
Sprenging varð í skólastarfinu á Litla-Hrauni en þar voru innritaði 56 nemendur í 467 einingar. Staðnar einingar voru 236 en í mjög mörgum tilfellum hinna föllnu eininga skiluðu nemendur sér ekki til prófs vegna þess að þeir voru ekki lengur til húsa á Litla-Hrauni eða Bitru, en hluti prófahalds fór fram þar. Að Sogni í Ölfusi voru þrír nemendur sem stunduðu nám á þessari önn. Einn nemandi stóðst 4 einingar en hinir samtals þrjár.