Viðtökurnar við lífræna markaðinum á Engi í Laugarási í Biskupstungum hafa verið frábærar það sem af er sumri.
„Þetta er fjórða sumarið sem markaðurinn er opinn og það er gaman að taka á móti ánægðum gestum. Völundarhúsið hefur líka slegið í gegn, bæði hjá börnum og fullorðnum,“ segir Ingólfur Guðnason sem rekur garðyrkjustöðina á Engi ásamt konu sinni, Sigrúnu Elfu Reynisdóttur.
„Núna í sumarbyrjun bjóðum við uppá jarðarber og síðar í sumar fáum við uppskeru af hindberjum, sem er nýjung í íslenskri garðyrkju. Við bjóðum líka uppá sjaldséð íslenskt grænmeti eins og eggaldin, chilipipar og kúrbít, “ segir Ingólfur.
Á markaðnum er hægt að fá lífrænt ræktaðar garðyrkjuafurðir en á Engi eru ræktaðar kryddjurtir, grænmeti og ávextir, bæði í heitum og köldum gróðurhúsum sem og í útiræktun. Að auki hafa verið gerðar tilraunir með að rækta lækningajurtir svo sem hvönn og vallhumal.
Á Engi er auk þess hægt að fá nýorpin egg frá haughænsnum staðarins en ein aðalfæða hænsnanna er afskurður úr lífrænu ræktuninni.
Bæði börn og fullorðnir hafa gaman að heimsókn á Engi þar sem ýmislegt skemmtilegt ber fyrir sjónir. Sem fyrr segir hefur völundarhúsið á Engi slegið í gegn en það er alls 1000 fermetrar úr klipptu gulvíðilimgerði.
Markaðurinn er opinn allar helgar í sumar fram í ágústlok.
Á markaðnum er mikið úrval af grænmeti og kryddjurtum svo eitthvað sé nefnt.
Hægt er að fá nýorpin egg frá haughænsnunum á Engi.
Völundarhúsið hefur á sér ævintýrablæ. sunnlenska.is/Jóhanna SH