Efnt verður til málþings um lífræna ræktun og framleiðslu í Vigdísarhúsi á Sólheimum í Grímsnesi þann 6. október næstkomandi. Sólheimar hafa beitt sér fyrir lífrænni ræktun frá upphafi starfseminnar árið 1930.
Stíga þar á stokk bæði vísindamenn á sviði ræktunar, lífrænir bændur og ræktendur sem fjalla um helstu álitaefni lífrænnar ræktunar í dag frá mörgum hliðum. Að auki verður kynnt skýrsla Environice um stöðu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og tillögur til stjórnvalda.
Meðal þeirra sem flytja erindi verða Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, Kristján Oddsson, mjólkurframleiðandi á Hálsi í Kjós, Þórður G. Halldórsson fyrrverandi garðyrkjubóndi á Akri í Laugarási, Erla H. Gunnarsdóttir verkefnastjóri Lífrænt Ísland, Sævar Ó. Ólafsson Samkaupum og Stefán Gíslason framkvæmdastjóri Environice.
Málþingið stendur frá kl. 11:00 – 16:00 föstudaginn 6. október. Boðið verður upp á léttan hádegisverð. Eftir þingið verður staðarleiðsögn í boði.
Fundarstjóri verður Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Sólheima. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Sætafjöldi er takmarkaður og því nauðsynlegt að skrá þátttöku á vef Sólheima og þar má einnig finna dagskrá og nánari upplýsingar.