Jarðneskar leifar skákmeistarans Bobby Fischer voru grafnar upp í nótt í samræmi við dóm Hæstaréttar frá því um miðjan júní.
Heimilað var að grafa líkamsleifarnar upp og taka úr þeim lífsýni til þess að skera úr um faðerni ungrar stúlku frá Filippseyjum, Jinky Young, sem segir Fischer vera föður sinn. Fischer var grafinn í Laugardælakirkjugarði árið 2008.
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir í samtali við mbl.is að uppgröfturinn hafi verið framkvæmdur samkvæmt dómi Hæstaréttar og faglega og virðulega hafi verið staðið að honum. Sóknarprestur og læknir hafi verið viðstaddir sem og annar nauðsynlegur mannskapur eins og lög geri ráð fyrir við slíkar aðstæður.