Vegagerðin reiknar með að margar aðalleiðir á Suðurlandi verði á óvissustigi og jafnvel lokaðar á morgun, föstudag, vegna veðurs.
Hellisheiði og Þrengsli eru á óvissustigi frá klukkan 2 í nótt til klukkan 18 á morgun, Lyngdalsheiði frá klukkan 6 í fyrramálið til klukkan 18 og Suðurstandarvegur frá klukkan 6 í fyrramálið til klukkan 16.
Þá er Suðurlandsvegur milli Markarfljóts og Víkur á óvissustigi frá klukkan 10 til 17 og Suðurlandsvegur milli Kirkjubæjarklausturs og Kvískerja klukkan 10 til 18.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi frá klukkan 7 í fyrramálið og appelsínugul viðvörun frá klukkan 11 til 17. Í fyrramálið má reikna með skafrenningi og lélegu skyggni en þegar líður á morguninn þykknar upp og byrjar að rigna.