Alls voru seldar íbúðir fyrir 11,1 milljarð króna á svokölluðu Árborgarsvæði, þ.e. Hveragerði, Ölfus og Árborg, á síðasta ári. Það er aukning um 37 prósent frá því árið 2014.
Í heildina séð voru samningarnir 515 talsins á móti 377 árið áður. Meðalveltan í hverri viku jókst úr 163 milljónum króna í 214 milljónir, en athygli vekur að meðalverð á hverja selda íbúð stendur nokkurn veginn í stað, er 20,7 milljónir á móti 21,8 milljón árið áður.
Þetta er í samræmi við umsagnir fasteignasala sem benda á vinsældir minnstu og ódýrustu íbúðanna á fyrrnefndu svæði, og að kaupgeta ungs fólks hafi ekki aukist að neinu marki á árinu.
Steindór Guðmundsson, fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi, segist búast við sömu þróun á þessu ári, að sala verði mikil og áfram verði mest spurt um ódýrt húsnæði. Það helgast af þeirri staðreynd að ungt barnafólk hefur ekki fjárhagslega burði til að kaupa sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hækkun íbúðarverðs hefur verið miklu meira, ekki hvað síst í minni íbúðum í miðbæ Reykjavíkur.
Steindór segist ekki búast við mikilli hækkun á verði stærra íbúðarhúsnæðis á þessu ári, þótt markaðir séu vissulega breytilegir. Reynslan sýni þó að hækki verð á slíku húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, fylgi nágrannasvæði með, en lengra sé í það.
Athygli vekur hversu lítið framboð er á húsnæði í minni kjörnum, svo sem í Reykholti í Biskupstungum, Flúðum í Hrunamannahreppi, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi. Steindór segir ástæðuna vera hvernig leiguverð hefur verið á umræddum stöðum, fáir leggi í að byggja, og alls ekki í þeim tilgangi að leigja nýbyggt. Til þess sé leiguverð of lágt – eða byggingarkostnaður of hár.
„Það er ákaflega lítið sem kemur til okkar af húsnæði á þessum svæðum,“ segir Steindór. Á vissum svæðum sé mikil eftirspurn eftir ódýru eða hagkvæmu húsnæði fyrir starfsfólk ferðaþjónustuaðila, og við þeirri þörf hafi verið brugðist með ákveðnum hætti í Vík, en meira þurfi til.