Í viðvörun frá Veðurstofunni kemur fram að gasmengunar frá gosstöðvunum í Holuhrauni gæti orðið vart sunnanlands, í dag, fimmtudag.
Austlæg átt er yfir landinu og því má búast við gasmengun frá eldgosinu vestan gosstöðvanna. Í dag, fimmtudag er búist við að mengunarsvæðið færist sunnar og nái yfir Miðhálendið vestan og suðvestan gosstöðvanna. Ekki er hægt að útiloka að mengunarinnar verði vart á stærra svæði.
Kortið hér fyrir neðan er spákort gasdreifingar fyrir daginn í dag. Veðurstofan hefur einnig hannað sérstakt skráningarform svo fólk geti látið vita ef það verður vart við brennisteinslykt. Hver ný skráning birtist jafnóðum á korti þar sem upplýsingarnar safnast saman. Á vef Umhverfisstofnunar er upplýsingasíða vegna mengunar frá eldgosinu.