„Líkur á neikvæðum afleiðingum aukast eftir því sem verkfallið stendur lengur“

Halla Dröfn Jónsdóttir er félagsráðgjafi við FSu. Hún hefur áhyggjur af nemendum skólans. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Kennaraverkfallið í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur núna staðið yfir í sextán daga og virðist engin lausn vera í sjónmáli hjá deiluaðilum. Félagsráðgjafi við FSu hefur áhyggjur af nemendum skólans og segir mikilvægt að verkfallið leysist sem allra fyrst.

„Fjölbrautaskóli Suðurlands er fjölmennur skóli sem telur rétt um 1.000 nemendur í dagskóla og starfsfólkið um 162. Þetta er einn fjölmennasti vinnustaðurinn í kjördæminu. Við erum 25 í húsi þegar mest lætur þessa dagana svo við vonum auðvitað að samningar takist sem fyrst og nemendur og starfsfólk komist sem fyrst í skólann. Það skal þó tekið fram að starfsemin á Reykjum er með óbreyttu sniði,“ segir Halla Dröfn Jónsdóttir, félagsráðgjafi við FSu, í samtali við sunnlenska.is.

Pláss fyrir alla í FSu
Halla Dröfn segir að fáir skólar séu með eins fjölbreytt námsframboð eins og FSu. „Skólinn býður upp á bóknám, verknám, garðyrkjunám á Reykjum, fimm íþróttaakademíur, fjölmenna sérnámsbraut og kennslu í fangelsum sem dæmi. Í FSu er pláss fyrir alla og við höfum mjög mikla breidd innan nemendahópsins.“

„Við vitum að það eru alltaf einhverjar áhættur í tengslum við verkföll í skólum og þetta ástand reynir á alla. Við megum samt ekki gleyma því að ungmenni búa almennt yfir heilmikilli seiglu en þar skipta verndandi þættir í þeirra umhverfi, til dæmis gott bakland í fjölskyldu og þátttaka í félags- og tómstundastarfi, auðvitað miklu máli. Í sumum tilvikum getur eitthvað ógnað seiglunni svo sem erfið félagsleg staða, veikindi, námslegir erfiðleikar eða annað.“

Í matsal skólans iðar venjulega allt af lífi en ekki þessa dagana. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hefur mikil áhrif á nemendur á sérnámsbraut
Í FSu er boðið upp á sérnámsbraut en nám á sérnámsbraut er sniðið að þörfum nemenda sem notið hafa verulegrar sérkennslu í grunnskóla og þurfa sveigjanlegt, einstaklingsmiðað nám.
„Verkfallið hefur auðvitað mikil áhrif á þau sem stunda nám á sérnámsbrautinni. Sérnámsbrautin okkar er stór en hún telur í dag 72 nemendur. Flestir nemendur sérnámsbrautar þurfa sveigjanlegt eða einstaklingsmiðað nám og hópurinn er með mjög fjölbreyttar stuðningsþarfir.“

„Áhrif röskunar á skólastarfi eru gjarnan meiri gagnvart þessum hópum, það hefur sýnt sig en svo eru auðvitað nemendur á öllum brautum í mis góðri stöðu til að takast á við þessar aðstæður.“

„Sumir nemendur eru ekki í miklu tómstundastarfi, eða hafa færi á að vinna utan skóla. Það er auðvitað ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þeim hópi og þeirri einangrun sem getur fylgt röskun á daglegri rútínu þeirra. Eins erum við með nemendur með langvarandi stuðningsþarfir sem geta í engum tilfellum verið ein og hafa foreldrar þurft að vera frá vinnu til að sinna þeim.“

Víðtæk áhrif
Halla Dröfn segir að það sé brýnt að verkfallið leysist sem fyrst, fyrir alla nemendur, ekki bara þau sem eru á sérnámsbraut.

„Líkur á neikvæðum afleiðingum aukast auðvitað eftir því sem verkfallið stendur lengur. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir nemendur á sérnámsbraut og fjölskyldur þeirra að verkfallið leysist sem allra fyrst.“

„Áhrifin á þessa nemendur eru víðtæk af því að við erum að tala um viðkvæman hóp sem þarf að vera í virkni og þarf oft og tíðum aðstoð við það. Fjölskyldur geta fundið mikið fyrir þessu þar sem hver dagur er púsluspil svo hlutirnir gangi upp.“

„Röskun á starfi og fjarvera frá skóla er ekki eitthvað sem nemendur skólans, sama á hvaða braut þeir eru, þurfa á að halda svo ábyrgð samningsaðila er mjög mikil.“

Fjölbrautaskóli Suðurlands er tómlegur á að líta þessa dagana. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Dýrmætt starfsfólk
Nemendur hafa leitað til Höllu Drafnar jafnvel þótt önnur starfsemi skólans liggi niðri. „Nemendur skólans sem koma langt að og eru farnir til síns heima geta nýtt sér að hitta mig í gegnum Teams. Skólameistari sendi póst á alla nemendur og forsjáraðila þar sem ítrekað var að þjónusta skólafélagsráðgjafa og hjúkrunarfræðings væri í boði í verkfallinu. Náms- og starfsráðgjafar skólans eru fjórir en þær eru aðilar að kennarasambandinu og eru í verkfalli.“

„Hugur minn er hjá nemendum og samstarfsfólki mínu sem er í verkfalli, sem og öðrum í verkföllum í leik-, grunn, framhalds og tónlistarskólum. Í FSu starfa starfsmenn með ólíkan en dýrmætan bakgrunn sem virkilega leggja sig fram af alúð og metnaði við að sinna þessu mikilvæga hlutverki að mennta börn. Mig langar líka að segja að nemendur læra ekki síður á hinu óformlega hér í skólanum, samskiptum við starfsfólk sem sinnir ólíkum hlutverkum innan skólans og aðra nemendur. Ég vona innilega að samningsaðilar nái fljótt saman og skólinn okkar fyllist af lífi á ný.“

Óvissa og flóknar tilfinningar
Halla Dröfn hvetur nemendur til að halda sínu striki þrátt fyrir verkfall. „Ef ég ætti að gefa einhver ráð þá er það að reyna að halda reglu á hinu hefðbundna lífi. Fara að sofa á sama tíma og venjulega og vakna á morgnana. Búa sér til reglu yfir daginn. Reyna að halda í sína rútínu eins og hægt er og stunda hreyfingu. Ég veit að verkföllum fylgir ákveðin óvissa og margir upplifa flóknar tilfinningar. Við nemendur vil ég segja ekki hika við að leita til mín eða skólahjúkrunarfræðings ef það er eitthvað, enginn vandi er of stór eða of lítill. Áfram þið,“ segir Halla Dröfn að lokum.

Fyrri greinGul viðvörun á föstudag
Næsta greinNemendur GÍH verðlaunaðir fyrir smásögur á ensku