Lilja ráðin kynningarfulltrúi og Þuríður atvinnufulltrúi

Lilja Magnúsdóttir og Þuríður Benediktsdóttir. Ljósmynd/Skaftárhreppur

Kirkjubæjarstofa þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri og sveitarfélagið Skaftárhreppur hófu samstarf í atvinnu- og kynningarmálum Skaftárhrepps í byrjun árs. Á sama tíma hófst formlegt samstarf Kirkjubæjastofu og SASS um atvinnuráðgjöf á svæðinu.

Ráðnir hafa verið tveir starfsmenn sem skipta með sér verkum. Það eru þær Þuríður Benediktsdóttir, áður starfsmaður Skaftárhrepps til framtíðar og Lilja Magnúsdóttir, ritstjóri eldsveita.is Þær munu starfa á Kirkjubæjarstofu og verða til viðtals eftir samkomulagi.

Þuríður verður atvinnufulltrúi í Skaftárhreppi í samstarfi við atvinnumálanefnd. Það felst í því að veita fyrirtækjum aðstoð og ráðgjöf við umsóknir og skýrslugerð varðandi atvinnuskapandi verkefni og stuðla að fjölbreyttri atvinnustarfsemi í Skaftárhreppi.
Þuríður mun einnig fylgja eftir aðgerðaáætlun um framtíðarsýn til 2020 sem unnin var af íbúum Skaftárhrepps í verkefninu Skaftárhreppur til framtíðar. Saman munu þær Þuríður og Lilja sækja um verkefnastyrki fyrir Skaftárhrepp og Kirkjubæjarstofu.

Lilja verður kynningarfulltrúi. Hún heldur utan um kynningarmál, yfirfer og samræmir kynningarefni á þeim vefsíðum sem tilheyra sveitarfélaginu og undirbýr gerð nýrrar vefsíðu fyrir klaustur.is. Lilja mun vinna með menningarmálanefnd að undirbúningi menningarviðburða í Skaftárhreppi og vinna reglubundið í því að skrifa fréttir og auglýsa viðburði, jafnt innan sveitar sem utan.

Fyrri greinStyrktu stöðu þína fyrir háskólanám
Næsta greinElfa Dögg og Tómas opna nýjan veitingastað á Selfossi