Límtré-Vírnet framleiðir íþróttahúsið í Árnesi

Íþróttahúsið úr lofti horft í suðaustur. Tölvumynd/Magnús Arngrímur

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að taka tilboði Límtrés-Vírnets ehf í framleiðslu á fjölnota íþróttahúsinu sem rísa mun í Árnesi.

Um er að ræða límtréshús með yleiningum en verkið felur í sér framleiðslu á öllu sem þarf til að reisa húsið á steypta plötu, þ.e.a.s. burðarvirki úr límtré, steinullar yleiningar í veggi og þak ásamt öllum festingum, skrúfum, þéttiefni o.s.frv.

Atlas verktakar ehf áttu lægsta tilboðið í verkið, 192,1 milljón króna en tilboðið reyndist ógilt þar sem það innihélt óheimila fyrirvara og frávik.

Tilboð Límtrés-Vírnets hljóðaði upp á 192,5 milljónir króna og var eina gilda tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem er 201,8 milljónir króna.

Fimm önnur tilboð bárust í verkið. Protec trading ehf. bauð 232 milljónir króna. Byko 254,5 milljónir, Alerio IS ehf. 276,3 milljónir, Probygg ehf 350 milljónir og Húsasmiðjan 409 milljónir króna.

Fyrri greinRonja Lena sigraði í Söngkeppni NFSu
Næsta greinBox800 flytur í þrefalt stærra rými