Matvælastofnun hefur veitt Lindarfiski ehf. rekstrarleyfi til 300 tonna seiðaeldis og matfiskeldis að Botnum í Meðallandi í Skaftárhreppi.
Fyrirtækið var áður með rekstrarleyfi fyrir 20 tonna eldi á bleikju. Lindarfiskur sótti um leyfi fyrir stækkuninni í maí árið 2018 og eftir úttekt starfsstöðva hefur Matvælastofnun staðfest gildistöku rekstrarleyfisins.
Fyrstu bleikjuhrognin af Hólastofni voru tekin inn í eldisstöð Lindarfisks árið 2011 og æ síðan hefur fyrirtækið byggt upp starfsemi sína. Með stækkuninni vonast forráðamenn fyrirtæksins til þess að skapa grundvöll fyrir atvinnu bæði í Skaftárhreppi, þar sem fiskeldið fer fram, og í Mýrdalshreppi þar sem fiskvinnsla Lindarfisks er.