Lionsmenn pakka jólanamminu

Árleg fjáröflun Lionsklúbbsins Suðra í Vík hófst á klúbbfundi í gærkvöldi með því að félagarnir pökkuðu sælgæti sem selt verður fyrir jólin í Mýrdal og undir Austur Eyjafjöllum.

Allur ágóði af sölunni fer til kaupa á augnsmásjá sem gefin verður á Heilsugæslustöðina í Vík, nokkur félög á svæðinu sameinast um að kaupa tækið.

Að sögn Birgis Hinrikssonar, formanns Suðra, munu Lionsmenn ganga í hvert einasta hús í Mýrdalnum og undir Austur Eyjafjöllum og selja sælgæti. „Þetta er árlegur viðburður hjá okkur og nær undantekningalaust höfum við fengið frábærar móttökur í gegnum tíðina,“ sagði Birgir í samtali við sunnlenska.is. „Við Lionsmenn þökkum fyrir það og sendum öllum Mýrdælingum og Eyfellingum kærar jólakveðjur.“

Á myndinni með fréttinni eru Jón Valmundsson, Einar Kjartansson, Eyjólfur Sigurjónsson, Karl Pálmason og Sigþór Sigurðsson við nammipökkunina.

Fyrri greinSkeiðamaður bjó til besta kaffið
Næsta greinMarín valin glímukona ársins