Listaverkið „Þetta líður hjá“ eftir Elísabetu K. Jökulsdóttur var afhjúpað við skemmtilega og fjölmenna athöfn við upphaf Blómstrandi daga í Hveragerði í gær.
Verkið er reist af Hveragerðisbæ í tilefni af 70 ára afmæli bæjarfélagisins en hugmyndina kynnti Elísabet fyrir bæjaryfirvöldum á afmælisárinu 2016 eftir kynni hennar af Varmá og unglingunum í bænum.
Listaverkið felst í því að 12 tonna steini eða bjargi hefur verið komið fyrir á bakka Varmár þar sem áin rennur flesta daga lygn og falleg. Myndhöggvarinn Matthías Rúnar Sigursson hefur höggvið út stól í bjargið sem sótt var í nágrennið eftir forskrift listamannsins. Stóllinn snýr í há suður og í honum geta allir notið notið kyrrðar og fallegs útsýnis yfir ána.
Með setu í stólnum og verkinu sjálfu erum við minnt á að að líkt og áin líður hjá þá munu vandamál og verkefni lífsins sem oft virðast óyfirstíganleg einnig líða hjá. Elísabet hefur tileinkað unglingum þetta einstaka og fallega verk.