Listvinafélag Hveragerðis hlaut menningarviðurkenningu Hveragerðisbæjar á 70 ára afmælisári bæjarins. Viðurkenningin var afhent af forseta Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssyni og Þórhalli Einarssyni, formanni nefndarinnar, á Blómum í bæ um síðastliðna helgi.
Í rökstuðningi kom fram að félagsmenn Listvinafélagsins hafa frá stofnun félagsins verið öflugir við að halda á lofti og kynna þá listamenn sem fyrstir bjuggu í Hveragerði og einnig þá fjölmörgu sem síðar hafa bæst í þann stóra hóp.
Hin glæsilega sýning „Listamennirnir í Hveragerði – fyrstu árin“ var staðsett í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk frá því sumarið 2012 þar til vorið 2014. Félagið heldur úti einstaklega fróðlegri heimasíðu ásamt því að standa fyrir menningarviðburðum sem hafa verið vel sóttir. Nú vinna félagsmenn að uppsetningu útisýningar í Listigarðinum Fossflöt sem ber yfirskriftina Listamannabærinn Hveragerði.
Hlutverk félagsins er fjölþætt en er í grundvallaratriðum að „efla menningarlíf með námskeiðum, sýningum og viðburðum í samvinnu við söfn, bæjarfélög, ferðamálayfirvöld og menningarsetur víðs vegar um landið. Einnig að halda á lofti minningu þeirra listamanna sem fyrstir bjuggu í Hveragerði og kynna þá sem á eftir hafa komið.“ Hefur félagsmönnum tekist að rækja þetta hlutverk með stakri prýði og þannig að eftir hefur verið tekið.
Gísli Páll Pálsson, nýkjörinn formaður LIstvinafélagsins var fjarri góðu gamni en í hans stað tók Guðrún Tryggvadóttir við viðurkenningunni ásamt öðrum meðlimum stjórnar. Guðrún er einn af stofnendum félagsins og ein aðaldriffjöðrin í öflugu starfi þess auk þess sem hún er hönnuður sýninganna um Listamannabæinn.