Síleanski listamaðurinn Marco Evaristti setti í morgun rauðan ávaxtalit í goshverinn Strokk í Haukadal sem gaus í kjölfarið bleiku gosi. Evaristti hefur verið kærður fyrir athæfið af landeigendum við Geysi.
Mbl.is greinir frá þessu og segir að sitt sýnist hverjum um uppátæki Marco. Hann var á leið til yfirheyrslu hjá lögreglu þegar mbl.is náði tali af honum.
„Ég gerði það af því að ég er málari, landslagsmálari en ég nota ekki striga heldur mála ég beint á náttúruna,“ segir Marco um gjörninginn. Hann segir að Íslendingar ættu að vera stoltir þegar þeir líta verk hans augum enda hafi enginn séð íslenska náttúru í þessari mynd áður.
„Ég bið ekki um leyfi því ég trúi því ekki að náttúran tilheyri neinum. Ég er maður málfrelsis og mér finnst að náttúran tilheyri ekki neinum einum heldur öllum,“ segir Marco.
Aðspurður neitar hann því að hann hafi með gjörðum sínum einmitt tekið eignarvaldið í eigin hendur og eyðilagt náttúruverðmæti fyrir öðrum. Í gjörninginn notaði hann fimm lítra af rauðum ávaxtalit sem vanalega er notaður í matvöru og segist hann hafa vottorð frá eiturefnaeftirliti Danmerkur um að liturinn sé ekki skaðlegur náttúrunni og að hann hverfi af sjálfu sér.
„Ég var þarna klukkan korter yfir fjögur í morgun og beið eftir því að sólin kæmi upp. Ég framkvæmdi gjörninginn klukkan 05:25 að morgni og enginn var á staðnum í þá tvo tíma sem þetta tók.“