Líta aukinn vopnaburð ungmenna alvarlegum augum

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Aukin harka hefur færst í hópamyndanir ungmenna á Selfossi og eru ungmenni farin að ganga með vopn í auknum mæli. Um er að ræða börn á elsta stigi í grunnskóla.

Foreldrar sem sunnlenska.is ræddi við hafa verulegar áhyggjur af ástandinu og kalla eftir aukinni samfélagslegri ábyrgð.

„Við lítum aukinn vopnaburð ungmenna mjög alvarlegum augum og það liggur fyrir að með ört stækkandi samfélagi þurfi að auka forvarnir tengdar þessum málaflokki,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Getur haft langvarandi afleiðingar
Jón Gunnar segir að málefni barna og ungmenna séu einn mikilvægasti málaflokkur samfélagsins og vilji lögreglan vinna þann málaflokk vel.

„Ofbeldisbrot barna og ungmenna hafa alvarlegar og langvarandi afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni og geta varað fram á fullorðinsár hjá þeim börnum sem beita því sem og börnum sem verða fyrir því.“

Líkt og annars staðar á landinu hafi ofbeldisbrot og vopnaburður ungmenna aukist í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. „Að því sögðu höfum við tekið eftir því að sú vinna sem hófst haustið 2023 hefur skilað árangri með aukinni umræðu, eftirfylgni mála og fræðslu. Þetta endurspeglast í gögnum lögreglu sem sýna að ekki sé fjölgun vopnamála hjá ungmennum á þessu ári í okkar umdæmi,“ segir Jón Gunnar.

Lögreglustöðin á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Götugengi oft ungir karlmenn
Jón Gunnar segir að lögreglan hafi einnig áhyggjur af hópamyndunum ungmenna, sem oft eru kölluð götugengi og eru skilgreind sem hópur ungmenna sem er áberandi á opinberum svæðum.

„Sjálfsmynd hópsins byggist á þátttöku í ólöglegu athæfi. Með því er meðal annars átt við ofbeldi, eignaspjöll, innbrot og sölu á ólöglegum varningi. Oft á tíðum eru þessi götugengi ungir karlmenn sem tengjast ofbeldismálum og skipulagðri brotastarfsemi.“

„Lögreglan hefur á síðustu árum bent á að ofbeldi innan ákveðinna hópa ungmenna virðist vera að breytast og að hópamyndun og átök milli ungmenna væri að taka á sig harðari mynd en áður þar sem hnífum og öðrum eggvopnum væri beitt.“

Þverfagleg samvinna lykilatriði
Jón Gunnar segir að afbrotavarnir séu lykilatriði til að takast á við alvarleg ofbeldisbrot.

„Það þarf að beina börnum frá afbrotum strax í upphafi og á sama tíma tryggja að lögreglan hafi þau verkfæri og mannafla sem þarf til að takast á við alvarleg ofbeldisbrot. Þar er þverfagleg samvinna lögreglu við nærsamfélög lykilatriði.“

„Reynslan hérlendis og erlendis sýnir að ekki verður komið í veg fyrir alvarleg ofbeldisbrot nema með samvinnu lögreglu, foreldra, félags- og barnaverndarþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðis- og menntakerfis auk annarra lykilaðila í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Áhersla forvarna og fræðslu á að vera á að beina börnum frá afbrotum.“

Dómsmálaráðuneytið, lögreglan og Neyðarlínan standa fyrir vitundarvakningunni „Góða
skemmtun“ á hátíðum sumarið 2024. Hægt er að sjá myndbönd á Facebook síðu Lögreglunnar á
Suðurlandi og Instagram reikningi embættisins „samfelagsloggur_suðurland“.

Börn eldri en 15 ára sakhæf
Jón Gunnar segir að þegar lögreglu berist tilkynning um vopnamál sé alltaf tekið til skoðunar um hvort lögregla eigi að vopnast, því meginreglan er sú að vopnaburður kallar á frekari vopnaburð.

„Við óskum oft á tíðum eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra sem kemur þá á vettvang og aðstoðar okkur ef þess þarf. Ólögleg vopn í umferð eru haldlögð af lögreglu og að öllum líkindum eytt í framhaldinu af því. Ef um barn er að ræða, einstakling yngri en 18 ára, eru foreldrar upplýstir og síðan barnavernd í framhaldinu,“ en þess má geta að þegar barn hefur náð 15 ára aldri telst það sakhæft.

„Ef um er að ræða einstakling undir 15 ára breytist aðkoma lögreglu, þar sem sá einstaklingur telst þá ósakhæfur og þá er leitað annarra leiða til þess að ljúka máli, til dæmis með sáttafundi, en þá er reynt að ná sáttaleið og á milli aðila. Aukið samstarf við félagsmiðstöðvar hefur gefið lögreglu jákvæða reynslu af því að eiga auðvelt með að finna út hvaða aðilar eiga í hlut hverju sinni.“

Mikilvægt að foreldrar tali við börnin sín
Jón Gunnar segir að ungmenni séu ólíklegri til að beita ofbeldi ef þau hafa sterkar félagslegar tengingar við aðra einstaklinga, foreldra, skóla eða stunda tómstundir.

„Þessar félagslegu tengingar eru myndaðar innan fjölskyldu, skóla eða með jafningjum, sem birtist svo í sjálfsmynd ungmenna. Við hvetjum foreldra til þess að eiga samtal við börnin sín um vopnaburð og vera ófeimin við það þar sem vísbendingar úr gögnum lögreglu benda til þess að vopnaburður ungmenna er að aukast. Við hvetjum foreldra til þess að setja sig í samband við aðra foreldra enda er kostur að vita hvaða ungmennum barnið manns er að „hanga“ með.“

„Við miðlum einnig til allra foreldra og ungmenna að virða aldurstakmörk þar sem þau eiga við. Um helgina er til dæmis ekki heimilt að fara inn á Kótelettu-svæðið í fylgd foreldra eða forráðamanns. Við biðjum alla um að virða það, fyrir hönd tónleikahaldara og lögreglunnar á Suðurlandi,“ segir Jón Gunnar ennfremur.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Engin aukning á tilkynningum
Sunnlenska.is hafði samband við Önnu Rut Tryggvadóttur, teymisstjóra hjá barnavernd í Árborg, og segir hún að tilkynningum til barnaverndar um vopnaburð hafi ekki fjölgað.

„Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarin misseri virðist vopnaburður ungmenna á landsvísu, og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafa færst í aukana. Í Árborg hefur ekki verið aukning á tilkynningum til barnaverndar um vopnaburð ungmenna og hefur barnavernd ekki upplýsingar um að börn séu almennt að ganga um með vopn á sér,“ segir Anna Rut.

Mjög alvarlegt mál ef börn bera vopn
„Það hafa verið uppi áhyggjur síðastliðna mánuði hjá þeim kerfum sem vinna með börnum og ungmennum að í samfélaginu sé ákveðin hópamyndun ungmenna. Hópamyndun þarf ekki að vera neikvæð, þvert á móti er hún mikilvægur hluti af félagslegum þroska barna. Það hafa þó verið áhyggjur af neikvæðri hópamyndun og geta slíkir hópar haft áhrif á önnur börn í samfélaginu sem leiðir til dæmis af sér aukna hræðslu.“

Anna Rut segir að það sé mikilvægt að foreldrar taki samtalið við börnin sín um vopnaburð ungmenna. „Það er mikilvægt að láta vita ef grunur er um að önnur börn séu að sýna af sér áhættuhegðun, ræða alvarleikann sem felst í því að bera vopn og hvað þá beita þeim.“

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brýnt að tilkynna til barnaverndar
Anna Rut ítrekar mikilvægi þess að hafa samband við barnavernd ef grunur leikur á að ungmenni séu með vopn á sér eða sýna af sér aðra áhættuhegðun.

„Ef grunur er um áhættuhegðun barna og ungmenna bendi ég á tilkynningarskyldu samkvæmt Barnaverndarlögum. Hægt er að tilkynna á netfangið barnavernd@arborg.is eða hafa beint samband við þjónustuver Árborgar í síma 480-1900 og óska eftir samtali við starfsmann barnaverndar. Séu erindi brýn og þola ekki bið bendum við á 112.“

Starfsmenn barnaverndar og frístundaþjónustu Árborgar verða með eftirlit á hátíð helgarinnar. Eftirlitið er í samstarfi við frístundaþjónustu Árborgar og lögregluna en fyrirhugað er eftirlit á fleiri viðburðum í sumar.

Fyrri greinGestir í sólskinsskapi og veðrið truflaði engan
Næsta greinHellisheiði lokuð til austurs