Mælir Veðurstofunnar í Markarfljóti við Einhyrningsflatir hefur sýnt stöðuga aukningu rafleiðni í ánni undanfarna fimm daga. Á sama tíma hefur vatnshæð aukist um u.þ.b. 30 cm.
Aukin rafleiðni í Markarfljóti við Einhyrningsflatir er líklega vegna jarðhitavatns undan Entujökli. Smáhlaup úr Entujökli með mikilli lykt eru þekkt í Fremri Emstruá. Þó hlaupin séu ekki stór þá geta þau skemmt göngubrú sem er yfir ánni.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni er ítrekað að ekki er búist við mikilli hættu af hlaupvatninu, heldur af gasmengun við upptök árinnar og í lægðum í landslaginu umhverfis ánna.