Lítið Skaftárhlaup hafið

Hlaup er hafið í Skaftá en í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að enn sem komið er sé um lít­inn at­b­urð að ræða og hef­ur rennslið við Sveinstind ekki náð venju­legu sum­ar­rennsli enn.

„Lík­leg­ast er hlaupið sé að koma úr vest­ari Skaft­ár­katl­in­um miðað við vaxt­ar­hraða en það þarf að staðfesta með sjón­rænni at­hug­un úr lofti. Veður­stof­an fylg­ist náið með fram­vind­unni,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Rennsli Skaftár við Sveinstind hef­ur verið að aukast síðasta sólar­hring og raf­leiðni hef­ur einnig auk­ist. Þess­ar at­hug­an­ir þýða að Skaftárhlaup er mjög líklega hafið. Rennslið við Sveinstind er nú um 150 m3/s.

Hlaupið kem­ur líkleg­ast úr vest­ari Skaftárkatl­in­um, sem síðast hljóp úr í janúar 2014. Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni at­hug­un úr flugi yfir katl­ana.

Möguleg vá
Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.

Brenni­steinsvetni berst með hlaup­vatn­inu þegar það kem­ur und­an jökli. Styrk­ur þess er þá svo mik­ill að það get­ur skaðað slímhúð í aug­um og önd­un­ar­vegi. Ferðafólki er því ein­dregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stend­ur yfir.

Sprung­ur munu mynd­ast mjög hratt í kring­um ketil­inn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötl­un­um, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaup­vatn gæti brotið sér leið upp á yf­ir­borðið.

Upp­tök hlaupa í Skaftá eru und­ir tveim­ur jarðhita­kötlum í Vatnajökli. Þegar hleyp­ur úr þeim renn­ur vatnið fyrst um 40 km und­ir jökl­in­um og síðan 20 km eft­ir far­vegi Skaftár áður en það kem­ur að fyrsta vatns­hæðarmæli, sem er viðvörun­ar­mæl­ir við Sveinstind. Söfn­un­ar­hraði í katl­ana er nokkuð jafn, því er lang­ur tími á milli flóða jafn­an ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katl­in­um eru jafn­an stærri en þau sem koma úr vest­ari katl­in­um.

Úr hvor­um katli hleyp­ur að jafnaði á tveggja ára fresti. Hámarks­rennsli í hlaup­um úr vestri katl­in­um hef­ur mest orðið um 900 m3/s, en venju­lega á bil­inu frá 200 til 700 m3/s. Vatn tek­ur nokk­urn tíma að ná niður að þjóðvegi, en það mun flæða út á hraunið neðan Skálar­heiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eft­ir að það tek­ur að draga úr rennsli við Sveinstind.

Fyrri greinEkki fara ríðandi yfir Stóru-Laxá
Næsta greinViðbyggingin við Sundhöllina vígð