Í Bókasafni Árborgar á Selfossi hefur verið komið fyrir búningaskiptislá fyrir hrekkjavökuna. Hægt verður að koma með og ná í hrekkjavökubúninga til 31. október á opnunartíma bókasafnsins. Ekki er skilyrði að koma með búning til að fá einn af slánni.
„Við vorum með svona búningaslá fyrir öskudaginn og það gekk rosalega vel. Það er alveg óhætt að segja að viðbrögðin sönnuðu að það er sannarlega þörf á svona skiptimarkaði,“ segir Rakel Sif Ragnarsdóttir, bókavörður hjá Bókasafni Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
Einstaklega gleðilegur skiptimarkaður
Rakel segir að búningasláin vekji mikla gleði. „Þetta eru allt krakkabúningar sem okkur hafa borist og það er virkilega gaman að sjá hvað þetta litla verkefni vekur mikla gleði. Bæði hjá þeim sem koma með búninga til að gefa og eins hjá þeim sem finna eitthvað sem passar. Þetta er einstaklega gleðilegur skiptimarkaður og við eigum von á að hann verði jafn vinsæll og öskudagsbúningasláin.“
„Við tökum glöð á móti öllum sem eru í búningastuði. Tilgangurinn með þessu er bæði að nýta það sem oft dagar uppi í geymslum engum til ánægju og auðvelda þeim börnum sem vilja, að eignast búning sem hentar.“
Myrkasýningin opnar í dag
„Við hérna á bókasafninu erum svo ótrúlega hrifin af hrekkjavökunni að okkur langaði til þess að taka þetta aðeins lengra og búa til okkar eigin Myrkradaga, þar sem við skreytum safnið og stillum upp hrollvekjandi bókum.“
Eins og venjulega eru myrkradagarnir á bókasafninu síðustu tvær vikurnar í október og hefjast þeir með opnun myrkrasýningarinnar í Listagjánni í dag, fimmtudag.
„Við ætlum líka að bjóða upp á hrekkjavökubíó á bókasafninu kl. 17:00. Að þessu sinni ætlum við að sýna teiknimyndina Coraline með íslensku tali en vekjum sérstaka athygli á því að þetta er myrkradagasýning og myndin er bönnuð innan 7 ára.“
Ófreskjusmiðja og hrekkjavökuföndur
Laugardaginn 19. október verður svo ófreskjusmiðja á bókasafninu frá kl. 12:30-13:30. „Þetta er teiknismiðja þar sem áhersla verður lögð á að teikna nornir, drauga og allt óhugnarlegt. Sigurjón Guðbjartur mun hafa umsjón með smiðjunni og bókasafnið mun skaffa öll verkfæri. Miðað er við aldurshópinn 9-14 ára en að sjálfsögðu eru allir velkomnir.“
„Laugardaginn 26. október verðum við síðan með hryllilegt hrekkjavökuföndur frá kl. 11-13. Ókeypis aðgangur, bara koma með góða skapið og sköpunargleðina,“ segir Rakel að lokum.