Eldur kom upp í lítilli íbúð í gömlu vinnubúðarhúsi í dreifbýlinu norðan við Stokkseyri á tólfta tímanum í kvöld.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn kl. 23:21 og var allt tiltækt lið frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi sent á vettvang ásamt tankbíl frá slökkvistöðinni í Hveragerði.
„Það var mikill eldur í húsinu þegar við komum á staðinn og eldtungurnar stóðu út um glugga. Það var frekar hvasst og reykurinn barst yfir næstu hús þannig að við settum okkar krafta í að verja þau, tvo vinnuskúra og stóra skemmu. Eldurinn komst ekki yfir í þessi hús en ef það hefði gerst hefði farið mun verr,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, settur varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Rúmlega tuttugu slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang og gekk slökkvistarf vel að sögn Lárusar en því var að ljúka nú á öðrum tímanum. Húsið sem brann er mikið skemmt.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins en húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp.