Rúm 60% áætlunarferða Herjólfs í Landeyjahöfn hafa fallið niður í september og októbermánuði.
Höfnin hefur nú verið lokuð í rúmar þrjár vikur samfellt. Yfir 140 ferðum í Landeyjahöfn hefur verið aflýst það sem af september og októbermánuði samkvæmt upplýsingum frá Eimskip. Aðeins hluti þessara ferða hefur verið beint til Þorlákshafnar. Höfnin hefur nú verið lokuð í rúmar þrjár vikur samfellt.
Ekki er vitað hvenær hægt verður að hefja siglingar Herjólfs aftur í Landeyjahöfn. Sanddæluskip átti að hefja dýpkun í dag en ölduhæð á svæðinu hefur hingað til verið of mikil til að skipið geti athafnað sig. Í nýju frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að verja aukalega 350 milljónum króna í framkvæmdir við höfnina. Þar af fara um 180 milljónir króna í sanddælingu á svæðinu. Það er ríflega sjöföld sú upphæð sem upphaflega var reiknað með að dýpkunin kostaði á ári. Dönsk verkfræðistofa mælti með ítarlegri athugunum á sandburði en Siglingastofnun taldi næga rannsóknir liggja fyrir.
Frekari erfiðleikar steðja að rekstri Landeyjahafnar. Vinnueftirlitið gerði nú í október, athugasemdir við öryggi við landgang hafnarinnar. Samkvæmt mati eftirlitsins uppfyllir hann ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Þar sem höfnin er ekki í notkun hefur eftirlitið ekki tekið afstöðu til þess hvort loka þurfi landganginum. Það kemur í ljós þegar höfnin verður aftur tekin í notkun.
RÚV greindi frá þessu.