Verk og tækni ehf á Selfossi bauð lægst í endurbætur og klæðningu á Vorsabæjarvegi og Gnúpverjavegi sem Vegagerðin bauð út fyrir skömmu. Aðeins munaði 66.150 krónum á tveimur lægstu tilboðunum, eða 0,1%.
Þrjú tilboð bárust og voru þau öll undir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 71,6 milljónir króna.
Verk og tækni bauð rétt tæpar 68 milljónir króna og Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir á Selfossi bauð rétt rúmar 68 milljónir króna í verkið. Borgarverk átti síðan hæsta tilboðið, rúmlega 69,1 milljón króna.
Um er að ræða útakstur styrktarlags, burðarlags og útlögn klæðningar á Vorsabæjarvegi á Skeiðum og Gnúpverjavegi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Verkinu á að vera lokið þann 1. september næstkomandi.