Litla kaffistofan, útvörður Árnessýslu í vestri, er 50 ára í dag en staðurinn var opnaður þann 4. júní 1960.
Af því tilefni býður Stefán Þormar, veitingamaður í Litlu kaffistofunni, gestum og gangandi í kaffi, kleinur og pönnsur fram eftir degi. Auk þess býður Olís tíu króna afslátt á eldsneyti í tilefni dagsins. Litla kaffistofan er í eigu Olís en Stefán Þormar hefur rekið hana undanfarin sautján ár.
Það var stöðugur straumur viðskiptavina í Litlu kaffistofuna þá stund sem sunnlenska.is leit þar við í morgun. Viðskiptavinirnir heilsuðu Stefáni allir með handabandi og hamingjuóskum enda fastakúnnarnir margir í þessari vinsælu vegasjoppu.