Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg í Svínahrauni verður lokað þann 31. júlí næstkomandi.
Í tilkynningu frá starfsfólki Litlu kaffistofunnar, sem birt var á Facebook í kvöld, segir að þar sem rekstrarumhverfið fyrir lítil fyrirtæki sé orðið mjög breytt, hefur sú ákvörðun verið tekin að loka.
Síðasti áætlaði opnunardagur verður 31. júlí en fram að þeim tíma verður opnunartíminn alla virka daga frá kl. 9 til 14, á meðan verið er að tæma lagerbirgðir.
Litla kaffistofan hefur lengi verið kölluð útvörður Árnessýslu í vestri. Hún var opnuð þann 4. júní árið 1960 og hefur því verið til staðar við þjóðveginn í 61 ár. Litla kaffistofan er í eigu Olís sem leigir út reksturinn. Núverandi rekstraraðilar hafa rekið Litlu kaffistofuna undanfarin fimm ár og þakka þeir góðar móttökur og góð kynni í tilkynningunni á Facebook.