Um helgina og í síðustu viku voru unnin skemmdarverk á skólalóð og húsnæði leikskólans Jötunheima á Selfossi. Fánastöng leikskólans var eyðilögð, fjölmargar flísar á klæðningu hússins voru brotnar og einnig var rúða brotin.
„Mér skilst að það hafi verið stór hópur af unglingum hér að leik um helgina – en við verðum að kenna þeim að gangast við því ef eitthvað gerist óvart,“ segir Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri á Jötunheimum, í samtali við sunnlenska.is.
Sendur var út tölvupóstur í gærmorgun á foreldra og forráðamenn barna á Jötunheimum þar sem fólk var hvatt til að standa vörð um leikskólann með jákvæðri umræðu. Ekki löngu eftir að pósturinn var sendur út gaf einstaklingur sig fram við Júlíönu þar sem hann vildi útskýra sína hlið á málinu.
„Þessi ungi maður var svo flottur þegar hann kom og bað mig afsökunar. Ég tek hatt minn ofan fyrir honum. Allir geta gert mistök og við lærum af mistökum okkar og höldum svo áfram,“ segir Júlíana og bætir við að drengurinn hafi ekki verið einn að verki en hann er aftur á móti sá eini sem hefur beðið afsökunar.
Útileiksvæðið vinsælt hjá unglingum
Þess má geta að eftirlitsmyndavélar eru á lóð leikskólans, sem verða notaðar til rannsóknar á málinu en á þessum myndavélum sést meðal annars að krakkarnir hafa verið að fara upp á þak leikskólans.
Að sögn Júlíönu er útileiksvæði Jötunheima sérlega vinsælt hjá unglingum um helgar, vinsælla en lóðir annarra leikskóla á Selfossi. „Bæði er leikvöllurinn stór, svo að hann hentar ágætlega til að spila fótbolta en svo eru körfurólurnar mjög vinsælar til að liggja í,“ segir Júlíana og bætir við að henni finnist mikilvægt að ungmennin læri betri umgengni um leikvöllinn.
„Berum virðingu fyrir samfélagslegum eigum og hjálpumst að við að passa upp á hlutina okkar og leikefnivið litlu barnanna okkar, því þetta er þeirra leiksvæði. Þau eiga rétt á því að koma að leikvellinum sínum í góðu standi eins og þau skildu við hann,“ segir Júlíana að lokum.