Í hádeginu á fimmtudaginn í síðustu viku fékk Neyðarlínan tilkynningu um eld í skemmuvegg við Hrafnagil í Ölfusi. Þar hafði kviknað í rusli undir húsvegg og eldurinn borist í húsið.
Þegar slökkviliðsmenn frá Hveragerði komu á vettvang hafði vegfarendum tekist að slá verulega á eldinn en slökkviliðið slökkti í glæðum auk þess að kæla vegginn sem var orðinn mjög heitur og rúður farnar að springa.
Ljóst þykir að litlu mátti muna að verr færi í þessu tilfelli.
Líklegt þykir að um sjálfsíkveikju hafi verið að ræða, en eldurinn logaði í efni sem geymt hafði verið við húsvegginn.