Vorið er komið og það þýðir Háskólest Háskóla Íslands rúllar af stað um landið. Fyrsti viðkomustaður lestarinnar er í Hveragerði í dag og á morgun.
Lestin hefur verið starfrækt frá aldarafmælisári Háskóla Íslands árið 2011 og áherslan í starfi hennar er á að kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki.
Í dag munu nemendur í sjöunda til tíunda bekk grunnskólans í Hveragerði taka þátt í völdum námskeiðum úr Háskóla unga fólksins. Í boði verða samtals tíu námskeið fyrir unga fólkið um bókstaflega allt milli himins og jarðar því þau fjalla um stjörnufræði, eðlisfræði af ýmsum toga, efnafræði, tómstunda- og félagsmálafræði, forritun, japönsku, fornleifafræði, vindmyllusmíði og vísindaheimspeki.
Litrík vísindaveisla fer síðan fram í íþróttahúsi grunnskólans í Hveragerði á morgun laugardaginn kl. 12-16. Þangað eru allir heimamenn og nærsveitungar velkomnir enda er um sannkallaða fjölskylduskemmtun að ræða þar sem kynslóðirnar spreyta sig í sameiningu á ýmsum skemmtilegum viðfangsefnum og gera óvæntar uppgötvanir.
Mðeal annars verður hægt að skoða dularfullar efnablöndur með Sprengju-Kötu, kynnast undraheimum Japans, leika með ljós og hljóð og kynnast stjörnum og sólum með Sævari Helga.