Jólaljósin í Árborg voru tendruð við hátíðlega athöfn á ráðhúströppunum á Selfossi kl. 18 í kvöld. Það var eins og við manninn mælt að um leið og ljósin höfðu verið kveikt tók að snjóa án afláts.
Jól í Árborg er átak sem farið er að skjóta rótum í sveitarfélaginu og markar athöfnin í dag upphafið að Jólum í Árborg 2012.
Skátafélagið Fossbúar bauð upp á kakó og EB kerfi lét jólatónlistina hljóma en áður en ljósin voru kveikt sungu þær Katrín Jóna Guðjónsdóttir og Dagmar Stefánsdóttir jólalög og yngri barnakór Selfosskirkju flutti syrpu af lögum undir stjórn Edit Molnár.
Yngstu afmælisbörn dagsins, Rósmundur Helgi Hrannarsson og Óskar Ólafur Guðbjarnarson, aðstoðuðu síðan starfsmenn Árborgar við að kveikja á jólaljósunum.
Fjöldi fólks mætti á ráðhúströppurnar og naut samverunnar og góða veðursins.