Siglingastofnun hefur farið þess á leit við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum að fá uppsjávarskipið Ísleif VE til dýpkunarframkvæmda í Landeyjahöfn.
Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta. Kristján Óskarsson, skipstjóri í Vestmannaeyjum, viðraði þá hugmynd að fá uppsjávarskip til að dæla upp sandi í höfninni og hafði meðal annars borið hugmyndina undir Siglingastofnun. Það hefur nú borið þann árangur að gera á tilraun með að láta dælubúnað skipsins sjúga upp sand í stað loðnu eða síldar.
Sigurður Áss Grétarsson hjá Siglingastofnun staðfestir þetta á vef Eyjafrétta og bætti við að svona búnaður kæmi aldrei í stað dýpkunarskips. „Þetta er tilraunaverkefni að prófa lausan dælubúnað. Við viljum sjá hvernig svona skipi gengur að athafna sig þarna, hvaða ölduhæð er takmarkandi, hvort unnt sé að skilja dælubúnaðinn eftir og hvernig losun sandsins dreifist,“ sagði Sigurður.