Lögreglan á Selfossi lagði hald á 90 byssur og mikið magn skotfæra, sem var í fórum manns sem handtekinn var á laugardagskvöld eftir að hann skaut ölvaður úr skammbyssum utan við hús sitt á Stokkseyri.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Maðurinn var með leyfi fyrir mörgum byssum en var sviptur því leyfi til bráðabirgða. Hann var handtekinn vopnlaus utandyra. Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði þá verið kölluð til en var ekki komin á staðinn.
Lögreglan á Selfossi bað sérsveitina um aðstoð við að haldleggja og skrá skotvopnasafnið. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom einnig á staðinn til að rannsaka hvað gengið hefði á. Loks fékk lögreglan á Selfossi aðstoð frá Landhelgisgæslunni, sem tók skotvopnasafnið til geymslu.
Lögreglan krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum en Héraðsdómur Suðurlands hafnaði þeirri kröfu í gær.