Logar vel í brennunni

Það logar vel í áramótabrennu Selfyssinga en kveikt var í henni í hádeginu í dag á gámasvæðinu á Sandvíkurheiði.

Ekki er boðið upp á fjöldasöng eða flugeldasýningu enda eldurinn í dag ekki til kominn af góðu. Ekki tókst að kveikja upp í brennunni á gamlársdag þar sem hún var rennandi blaut auk þess sem björgunarfélagsmenn á Selfossi voru kallaðir í útkall á sama tíma og kveikja átti upp í henni.

„Það kom ekki annað til greina en að brenna köstinn, það var búið að bleyta upp í honum með olíu og efniviðurinn er blandaður svo að það var ekki hægt að koma þessu í förgun,“ sagði Óðinn K. Andersen, starfsmaður áhaldahúss Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Jólin verða hins vegar kvödd á Selfossi í kvöld og þá fá brennuáhugamenn eitthvað fyrir sinn snúð því Ungmennafélag Selfoss stendur að blysför og þrettándabáli með jólasveinum, álfum og tröllum. Blysförin fer frá Tryggvaskála kl. 20 að brennustæðinu við Gesthús. Þá verður glæsileg flugeldasýning í umsjón UMFS með stuðningi Björgunarfélags Árborgar.

TENGDAR FRÉTTIR:
Engin brenna en frábær flugeldasýning

Fyrri greinOrri Páll ráðinn í þjóðgarðinn
Næsta greinSlökkti eldinn með snjó