Lögbannsmálinu skotið til dómstóla

Ríkissjóður Íslands unir ekki niðurstöðu sýslumannsins á Selfossi, sem hafnaði kröfu um lögbann við innheimtu gjalds af ferðamönnum við Geysi. Gjaldtakan á að hefjast kl. 15 í dag.

Ríkissjóður hefur tilkynnt sýslumanni að málinu verði skotið til dómstóla og verður greinargerð þar um ásamt gögnum afhent héraðsdómi Suðurlands í dag.

Fjármála- og efnahagsráðherra fór fram á það við sýslumanninn á Selfossi að lögbann yrði sett við innheimtu gjalds sem Landeigendafélag Geysis hyggst innheimta. Sýslumaður hafnaði beiðninni síðastliðinn miðvikudag.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að hluti lands innan girðingar á svæðinu sé séreign ríkisins samkvæmt afsali frá 1935. Innan þess eru helstu hverir svæðisins, þ.e. Geysir, Strokkur og Blesi. Landið umhverfis þessa séreign ríkisins er hins vegar í sameign ríkis og félags landeigenda. Ríkissjóður á fyrir utan séreignina u.þ.b 25% í sameignarlandinu með félaginu.

Ríkissjóður hefur lýst sig andsnúinn fyrirhugaðri gjaldtöku sameigenda að landinu við Geysi og bent á að landeigendafélagið geti ekki ráðist í framkvæmdir á séreignarlandi ríkissjóðs né innheimt gjald vegna þess. Innheimta gjalds væri sömuleiðis grundvallarbreyting á afnotum svæðisins og tilgangi frá því sem verið hefur og myndi takmarka afnot af sameignarlandi og séreign íslenska ríkisins.

Sameigendum ríkisins hefur verið boðið að ríkissjóður bæri kostnað af nauðsynlegum framkvæmdum til að tryggja vernd svæðisins og til að kosta rekstur þess og gæslu á því, út árið 2015. Var þetta boðið gegn því að sameigendur féllu frá fyrirhugaðri gjaldtöku og reynt yrði í kjölfarið að ná samkomulagi um framtíðarskipan mála á svæðinu.

Fyrri greinBoðunaræfing vegna Kötlu
Næsta greinLögreglustjórinn á Hvolsvelli stýrir umferðarnefnd