Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að lögreglan á Selfossi hafi brotið á mannréttindum konu sem var neydd til þess að gefa þvagsýni í gegnum þvaglegg.
Málið kom upp árið 2008 þegar konan var stöðvuð á Selfossi grunuð um ölvun. Hún var síðar dæmd í Héraðsdómi Suðurlands fyrir ölvunarakstur.
Í bréfi umboðsmanns, sem er beint til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, segir að lögreglan á Selfossi hafi ekki gætt meðalhófsreglunnar auk þess sem þeir gerðust brotlegir við 3. grein mannréttindasáttmálans. Ákvæðið kveður á um að engan megi beita pyndingum né annarri „ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð“ eða refsingu.
Þá kemur fram í álit umboðsmanns að það hefði verið réttara að eingöngu konur hefðu átt að aðstoða við að taka þvagsýnið. Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli.
Umboðsmaður ákvað að skoða málið eftir umfjöllun fjölmiðla um málið. Hann telur hinsvegar ekki tilefni til þess að aðhafast frekar.
Vísir greindi frá þessu.