Lögreglan á Hvolsvelli handsamaði seinnipartinn á föstudag tvo hunda sem tilkynnt hafði verið um á vergangi í Þórsmörk síðustu viku.
Tilkynnt var að sést hefði til hundanna í Þórsmörk og voru þeir við Nauthúsagil um klukkan þrjú í dag. Þeir voru handsamaðir þar skammt frá á fimmta tímanum og færðir í geymslu.
Um er að ræða fullorðna tík og hvolp sem mjög líklega er undan tíkinni. Báðir hundarnir voru mjög svangir og þyrstir þegar þeir náðust og fengu þeir að éta og eru nú í góðu yfirlæti.
Hundarnir voru skannaðir til að athuga með örmerkingu en þeir voru báðir ómerktir.
Lögreglan á Hvolsvelli biður alla þá sem kannast við viðkomandi hunda að láta vita í síma 488 4110, netfangið hvolsvollur@logreglan.is eða á facebook síðu lögreglunnar á Hvolsvelli.