Lögreglan kannar ljósabúnað og eftirvagna

Í febrúarmánuði lagði lögreglan á Suðurlandi sérstaka áherslu á að fylgjast með ástandi ökumanna með tilliti til ölvunar og vímuáhrifa og ljósabúnaði og -notkun.

Hjá embættinu voru alls bókuð 69 verkefni þar sem þessir málaflokkar komu við sögu. Sex voru grunaðir um ölvun við akstur og sjö um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þrír voru kærðir fyrir ófullnægjandi ljósabúnað þegar verulega var ábótavant en annars var ökumönnum góðlátlega bent á þegar lítillega vantaði upp á að ljósabúnaður væri í fullkomnu lagi.

Í marsmánuði verður, auk hefðbundins eftirlits, sjónum beint sérstaklega að ljósabúnaði ökutækja, búnaði og ástandi aftanívagna og því að skráningarmerki ökutækja séu á sínum stað og sýnileg eins og vera ber.

Til að komast hjá afskiptum vegna þessara atriða gefur lögreglan ökumönnum það ráð að hafa ökutæki sín í lagi og bæta úr ef upp á vantar.

Fyrri greinKarlakór Selfoss 50 ára í dag
Næsta greinSkoða vindmyllur í útlöndum