Lögreglan á Selfossi gerði upptæka 700 lítra af gambra og 40 lítra af tilbúnum landa ásamt búnaði og fullkomnum suðutækjum í bílskúr á Selfossi í gærkvöldi.
Tveir menn voru handteknir og viðurkenndi annar þeirra framleiðslu á landanum og að hann væri ætlaður til sölu en hinn maðurinn neitaði sök.
Gambrinn var í 700 lítra tanki og tilbúinn til suðu. Lagt var hald á búnað og tæki og verður vökvanum fargað.
Mönnunum var sleppt að loknum yfirheyrslum en málið er enn í rannsókn.