Lögreglan lokar yfir Múlakvísl

Leiðin yfir Múlakvísl verður lokuð til kl. 18:00 í dag. Lögreglan og Vegagerðin ætla að meta aðstæður áður en ákveðið verður með framhaldið, að sögn Sveins K. Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli.

Nítján manns voru í rútunni sem festist í ánni að meðtöldum bílstjóra. Enginn slasaðist þegar atvikið átti sér stað, en farþegar þurftu að standa á þaki rútunnar þar til þeim var komið til bjargar.

„Þau eru blaut eftir volkið og skelkuð,“ sagði Sveinn. Hann sagði að læknir sé á staðnum og fólkinu boðið að koma á fjöldahjálparstöð til aðhlynningar. Fjöldahjálparstöðvar eru bæði á Kirkjubæjarklaustri og í Vík.

Sjúkrabílar eru til taks við Múlakvísl til öryggis.

Á Vísi er haft eftir G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, að óvíst sé hvort selflutningar hefjist aftur, sú ákvörðun sé í höndum vegagerðar, lögreglu og almannavarna.

Fyrri greinRúta valt í Múlakvísl
Næsta greinFarvegur árinnar breyttur