Lögreglubíll í útkalli lenti í árekstri við sendiferðabíl á mótum Engjavegar og Tryggvagötu á Selfossi síðdegis í gær.
Rétt fyrir klukkan fimm í gær barst lögreglu tilkynning um bráðatilfelli í húsi á Selfossi og fór lögreglan af stað í forgangsakstri ásamt sjúkrabíl.
Lögreglubílnum var ekið suður Tryggvagötu með forgangsljósum og sírenu og þegar hann kom að gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu var rautt ljós á götuvita á umferð um Tryggvagötu.
Í sömu mund og lögreglubíllinn ók inn á gatnamótin kom sendibíll úr vesturátt eftir Engjavegi inn á gatnamótin. Hvorugum ökumanninum reyndist unnt að afstýra árekstri.
Ökumennirnir voru báðir einir á ferð og munu hafa hlotið minniháttar áverka, en báðir bílarnir eru talsvert skemmdir.